Endurskoðun

Útvegum endurskoðanda vegna áritunar fyrir reikningsskil félaga og fyrirtækja þegar þess er óskað eða krafist samkvæmt lögum.

Hvað er endurskoðun?

Endurskoðun er það álit sem endurskoðandi lætur í té á reikningsskilum félagsins, um áreiðanleika fjárhagsupplýsinga og rekstrarhæfi. Endurskoðun er ekki gerð ársreiknings og reikningsskila, það er hlutverk reikningshaldara („Accountant“).

Hver er ábyrgð endurskoðanda?

Ábyrgð endurskoðanda takmarkast við það álit sem hann gefur reikningsskilunum, en setji hann fyrirvara þá takmarkast ábyrgðin við fyrirvarann.

Hver er ábyrgð stjórnar?

Stjórn ber ábyrgð á reikningsskilum félaga og leggur fram ársreikning. Stjórnin ræður framkvæmdastjóra sem ber ábyrgð á daglegum rekstri.

Hvenær er skylt að kjósa löggiltan endurskoðanda?

a. Þegar félög fara fram úr tvennum af eftirfarandi stærðarmörkum tvö ár í röð, skal kjósa a.m.k. einn endurskoðanda eða endurskoðunarfélag:

  • eignir nema 200.000.000 kr.
  • rekstrartekjur nema 400.000.000 kr.
  • fjöldi ársverka á reikningsári er a.m.k. 50.

b. Í félögum þar sem ekki eru lagðar hömlur á viðskipti með eignarhluta skal kjósa a.m.k. einn endurskoðanda.

c. Samvinnufélög, er hafa B-deild stofnsjóðs, skulu kjósa a.m.k. einn endurskoðanda.

d. Félög tengd almannahagsmunum:

  • Lögaðili sem er með skráð lögheimili á Íslandi og hefur verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði í ríki innan evrópska efnahagssvæðisins, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum.
  • Lífeyrissjóður sem hefur fullgilt starfsleyfi.
  • Lánastofnun eins og hún er skilgreind í lögum um fjármálafyrirtæki.
  • Félag sem hefur starfsleyfi til að reka vátryggingarstarfsemi hér á landi samkvæmt lögum um vátryggingarstarfsemi.

Aðrar ástæður þegar kjósa þarf löggildan endurskoðanda:

  • Að beiðni stjórnar.
  • Að beiðni lánadrottna.
  • Að beiðni hagsmunaaðila.
  • Að beiðni viðskiptamanna.
  • Aðrar ástæður.